Morgunstjarna

Morgunstjarna á himni, mild og skær,
máttur hennar bjarta tíma gefur.
Í stjörnuskini lítill blundar bær,
bærinn sem við fjöruborðið sefur.
Og alda hafsins blíð við Lækinn leikur
er liðast upp frá húsum morgunreykur.

Þá rennur dagur upp, svo hreinn og hlýr,
í Hafnarfirði að morgni nýrrar aldar.
Lágreist byggðin dreifð og bærinn nýr,
ból sem magnar vonir, þúsundfaldar.
Og skipin vagga rótt í vari fjarðar.
Svo vært og rótt í faðmi móður Jarðar.

Og nú, er liðið hafa hundrað ár,
vor hugur reikar fram um næstu aldir.
Sól á Hamri, himinninn svo blár,
og Hafnarfjarðar gæfubrunnar valdir:
Já, morgunstjarnan allt til verka vekur;
völd af nóttu lífsins birta tekur.

jgr

Ljóðið sendi ég í samkeppni um afmælisljóð Hafnarfjarðarbæjar í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmælinu 2008. Hér er það svolítið stytt frá uppaflegri útgáfu og örlitlu verið hnikað til. Ljóðið "tapaði" í keppninni en mér þykir samt ósköp vænt um það ;0)

Heiti ljóðs og leiðarstef: Árið 1907 samþykkti góðtemplarastúkan Morgunstjarnan áskorun til hreppsnefndar Garðahrepps þess efnis að efnt yrði til almenns fundar skattgreiðenda um hvort ekki ætti að skora á Alþingi að veita Hafnarfirði kaupstaðarréttindi. Hreppsnefndin ákvað að verða við þeirri áskorun og á þeim fundi var samþykkt að skora á Alþingi að veita bænum réttindin (sjá Sögu Hafnarfjarðar I, 49-51). Sú áskorun reyndist lokahnykkurinn í áralangri sjálfstæðisbaráttu bæjarbúa. Morgunstjarnan er hér jafnframt þema í merkingunni dagrenning, eins og sjá má í hverju og einu erinda ljóðsins og bendir þannig til þess að kaupstaðurinn Hafnarfjörður sé enn við morgunsár sögu sinnar. Að síðustu hefur Morgunstjarnan kristilega skírskotun og er þar með samofin sögu íslensku þjóðarinnar frá kristnitökunni árið 1000: Hundrað ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar 2008 í kjölfar þúsund ára afmælis kristni á Íslandi árið 2000. Rétt er í því samhengi að minna á að talið er að fyrsta lútherska kirkjan hafi einmitt verið reist í Hafnarfirði og stendur minnisvarði um hana við smábátahöfnina auk þess sem kirkja stóð á Hvaleyri í kaþólskum sið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband