Til brúðhjóna

 

Hafsins öldur, háa kletta,

hyggur par að sigla, klífa.

Þætti beggja það vill flétta,

þeirra ást að elska, svífa.

 

Lífsins njóta, lifa núna,

leita nýrra ævintýra.

Halda í bestu barnatrúna,

blessun lofa ávallt stýra.

 

Saman ganga sínar leiðir,

þá sindrar gæfa í ástaraugum,

hamingjunnar götu greiðir,

glitrar traust af fingurbaugum:

 

Brúðkaupsstundin, björt og fögur,

blíður koss og tryggarheitið

færi ykkur fagrar sögur,

frið og sátt hvort öðru veitið.

 

 

jgr

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Kæra tré

Líkt og bergi af brjósti móður
blöðin nærir greina sjóður.
Þau falla létt í frjóan svörð
að foldu verða, hluti af jörð.
En nú þess rætur njóta þínar
sú næring streymir um æðar fínar.
Merkilegur máttur sá
sem myndar aftur blöðin smá.

Þannig lífið gróður græðir
glitrar dögg og skóginn fæðir.
Deyr og lifnar lauf við þig,
lífsins eilífð hringar sig
um gildan stofn og sterkan,
styrkan grundvöll merkan.
Ástríða og yndi er
okkar starf að hlúa að þér.


Skógargæði


Elur skógur af sér gæði
æti sækja dýrin hér,
aldinkjöt og fræið fæði
fegin á því gæða sér.
Lífsins sprota í láði kveikja
sem lyngið skýlir og jarðarher
en þeim ljúfir vindar feykja,
og víst það undur vænlegt er
sem vekur huga snauðan:
Því landið hefur lofað þér
að lífið sigrar dauðann.

jgr


Náttfuglar

Vært er kvöldsins vængjatak,
vindar þjóta í lundi.
En í rjóðri andartak
yndi á næturfundi.
Fuglar þagna fagra nótt,
friðsæll skógar eiður.
Þytur af einum þagnar fljótt
sem þiggur í skjóli hreiður.

jgr


Til vina

Helgar fagurt hjónaband
hamingjunnar fengur.
Fagurt vona ljómar land,
lygn er ævistrengur.

Flýgur hyggið fuglapar,
fæðir unga snjalla.
Speglar vorsins væntingar,
værð um framtíð alla.

Glæða vonir gæfuspor,
giftu færa slíka.
Fjölskyldunni faðir vor
færi blessun ríka.

jgr


Milda ljós

Myrkan huga
mildar ljós,
máttur gliturs ljómar tær.
Sindrar himins
sálarrós,
sólu glæðir himnablær.

Vorþrá

Blómgast lundur,
brum í greinum,
blíðust unaðsstund.
Ástar fundur,
ósk í leynum,
yndi vekur grund.

jgr


Sannleiksþrá

Þú hyggur himins til,
heit þín lífsins þrá,
krossins gata greið,
geislar lífsins brá.
Þó ef aðeins þú
þráir sannleikann.
Tær og hrein og trygg,
þér trúin færir hann.

jgr


Vild

Í djúpri vitund vís
er vild um nýjan dag.
Styrkur trúar tær
tryggir sálarhag.
Veitir unaðs þrá
og yndi himins lag.
Breiðir hægt og hljótt
á heiminn lífsins brag.

jgr


Hugarlíkn

Er grætur himinn
gráir dagar
gæta vonarinnar.

Þú lygnir augum,
líkn er huga
loforð gæfu þinnar.

jgr 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband