Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Værðarstundir

I

Við upphaf göngu þinnar
úr gæfulindum streymir.
Og undir verndarvængjum,
þú væntingarnar geymir.
Þá blómgast vor og angar
og værðarstundir langar
þig vísdómsorðin dreymir.

II

Í lífsins værðarlundi
þú leitar til að skilja.
Magnaður í raunum
er máttur afls og vilja.
Unaðsgrænar grundir,
og gullnar sælustundir
gráma dagsins hylja.

III

Við ferðalok þú hvílist,
í hvelfdum kyrrðarboga,
og veist að eilífð alla
mun ævisól þín loga.
Þú lítur farna vegu
í lífi yndislegu
við lygna himinsvoga.

jgr

(Værðarstundir er ljóð sérstaklega ort til uppsetningar í Værð, gönguleið og áningarstaði sem Lionsklúbburinn Ásbjörn í Hafnarfirði lét útbúa ofan Hvaleyrarvatns í Hafnarfirði með sérstökum styrk úr minningarsjóði Gísla S. Geirssonar.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband