Kvöld

Mildur og fagur,
ferðast hljótt:
Kveður dagur,
dimm er nótt.

Ljáðu eyra
lágum róm,
þá má heyra
þíðan hljóm.

Sálin viknar,
sárið grær.
Minning kviknar
kristalstær.

Mundu ljúfra
að leita fljótt.
Þiggðu að hjúfra
hjá þeim í nótt.

jgr


Dýrmætur dagur

Hver dagur þér strýkur
sem dýrmætur blær,
hver dagur er lífs okkar veldi.
Í deginum eina
hver dögun þín grær,
dagsvonin ljós þitt að kveldi.
Og dagurinn lifir
með dásemd, svo hljótt
sem demanti heimurinn skarti.
Mundu að svo fæðist
um myrkvaða nótt:
morgunninn dýrðlegi, bjarti.

jgr


Drýpur sól

Fjöll og heiðar,
himnagátt,
hljótt er þokubandið.
Dalalæðan
dvínar brátt,
drýpur sól á landið.

jgr


Ljóshöfn

Hugur þinn
er heimur efans
með viljans styrk
á valdi sínu.
En þér veginn
vísað getur
ljóssins höfn
í hjarta þínu.

jgr


Í núinu

Þótt nú dimmi
og dagi síðar
mun aftur birta
innan tíðar.

Ljúfra nátta
og lita gliturs,
dökkva njótum
en daga síðar.

 jgr


Tónspil hjartans

Ómar lífsins
lag og hljómar,
leikur dýrð um hugann bjarta.

Upphafs stef
á strengi vonar
slegið var af þínu hjarta.

jgr


Djásn

Ljóminn í augunum
lífsgleði sveipar.
Litfegurð þeirra
er mannanna skraut.
Brosið er dýrmætur
demantur lífsins.
Djásnið sem mannkyn
við fæðingu hlaut.

Gefðu mér brosið
já, gleðina sjálfa.
Gjöfina einu
sem kostar ei neitt.
Gefðu mér djásnið
hið dýrmæta eina,
demantinn þann
sem fær hamingju veitt.

jgr

*Djásn er í ljóðabókinni minni, Í fegurð hafsins, sem kom út 2002.


Kyrrð

Vitund þýð.
Vakir blær.
Hugur kyrr.
Hjartað slær.

jgr


Sálarró

Í huga sínum
himna fær
blessun sá er biður.

Hugans máttur
hreinn og tær,
frelsar sálu friður.

jgr


Friðarbæn

Tökumst saman hönd í hönd
hljóð og biðjum Guð um frið.
Brjótum hlekki, höggvum bönd.
Hrjáðum þjóðum leggjum lið,
leiðum til vonar mannkynið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband