Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Í núinu

Þótt nú dimmi
og dagi síðar
mun aftur birta
innan tíðar.

Ljúfra nátta
og lita gliturs,
dökkva njótum
en daga síðar.

 jgr


Tónspil hjartans

Ómar lífsins
lag og hljómar,
leikur dýrð um hugann bjarta.

Upphafs stef
á strengi vonar
slegið var af þínu hjarta.

jgr


Djásn

Ljóminn í augunum
lífsgleði sveipar.
Litfegurð þeirra
er mannanna skraut.
Brosið er dýrmætur
demantur lífsins.
Djásnið sem mannkyn
við fæðingu hlaut.

Gefðu mér brosið
já, gleðina sjálfa.
Gjöfina einu
sem kostar ei neitt.
Gefðu mér djásnið
hið dýrmæta eina,
demantinn þann
sem fær hamingju veitt.

jgr

*Djásn er í ljóðabókinni minni, Í fegurð hafsins, sem kom út 2002.


Kyrrð

Vitund þýð.
Vakir blær.
Hugur kyrr.
Hjartað slær.

jgr


Sálarró

Í huga sínum
himna fær
blessun sá er biður.

Hugans máttur
hreinn og tær,
frelsar sálu friður.

jgr


Friðarbæn

Tökumst saman hönd í hönd
hljóð og biðjum Guð um frið.
Brjótum hlekki, höggvum bönd.
Hrjáðum þjóðum leggjum lið,
leiðum til vonar mannkynið.

Ástarenglar

Til himins hljóð
við horfum
á minninganna myndir.
Þar ástar engla
eigum,
hugans ljúfu lindir.

jgr


Sorg

Sorgin er sólar
svarti koss
lagið og ljóðið
við lífsins kross.

Sorgin er sárið,
sálar und.
Hugurinn hljóður
helgar stund.

Sorg tengja sálu
systra bönd:
Til vonar þær vitja
um viljans hönd.

jgr


Sálarblær

Sálin er himinn
sérhvers manns:
og blærinn bærist
í brjósti hans.

jgr


Í náttstað fuglanna

I

Fuglar! himins fjör,
svo fögur unaðs sýn.
Er að þeim sækir svefn,
söngur þeirra dvín.
Að morgni heyra má
hið milda skógarhjal
og nærast enn á ný
af náttúrunnar mal.

II

Er sæll þá sefur fugl
í sólarvon um stund.
Logn í lundi og mó,
líkn við sálargrund.
Við hvítan mána hvíld,
hver ein planta höll.
Skrýðir þögnin skóg,
skýlir lífi þöll.

jgr


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband